Skip to main content

1. Hver er listamaðurinn? Stutt kynning á þér sem listamanni og því sem framundan er hjá þér í listheiminum (sýningarhald, vinnustofur, samvinnuverkefni?)

Ég heiti Anna Sigríður Gunnlaugsdóttir, nota sjaldnast Sigríðar nafnið, og er fædd 1957 og uppalin í Reykjavík. Þegar ég var krakki og unglingur teiknaði ég mikið og þegar ég fór í MHÍ skelfdist ég tilhugsunina um að nota liti og mála. Endirinn varð samt sá að ég skráði mig í málaradeild sem þá hafði reyndar ekki verið starfrækt um langa hríð og byrjuðum við aðeins tvær í þeirri deild undir frábærri leiðsögn Harðar Ágústssonar. Ég útskrifaðist úr málaradeild MHÍ 1978 og haustið á eftir fór ég í, École nationale supérieure des Beaux-Arts og dvaldi í París þann vetur. Eftir heimkomuna deildi ég vinnustofu á Laugaveginum með fyrrum skólafélögum meðfram vinnu á elliheimili.

Ég fór aftur í MHÍ og lauk námi í grafískri hönnun 1983 og vann alfarið við það starf til 1985 en þá eignaðist ég stúlkubarn og fór aftur að mála meðfram 50% starfi á stofu. Eftir fæðingu frumburðarins varð ég svo meðvituð um mátt líkama míns, svo upptekin af eigin kynferði, að konurnar mínar tóku að fæðast á striganum.Þær tóku sér þar bólfestu og ég elti, fór í ferðalag með ýmiskonar konum með þrútin brjóst af mjólk, framandlegum sem kunnuglegum. Þegar fram liðu stundir stýrði ég konunum mínum meira en þær mér og ég fór meðvitað að setja þær í ákveðin hlutverk.

Fyrir 13 árum, þá orðin leið á harkinu í auglýsingabransanum, tók ég kennslufræði við LHÍ og er búin að kenna myndlist síðan ég útskrifaðist þaðan. Ég hef sem sé alltaf unnið annað starf með myndlistinni. Í gegnum tíðina hef ég verið með vinnustofur víða en síðustu árin hef ég haft aðstöðu á Korpúlfsstöðum.

Ég er pólitísk og hef alltaf tekið þátt í réttindabaráttu okkar verst settu þjóðfélagsþegna.Ég hef lengi verið upptekin af mætti trúarbragða á lífsskilyrði kvenna og er sannfærð um að frelsisskerðing konunnar sé undirrót allrar kúgunar og undirstaða valdastrúktúrs feðraveldisins.Þessi uppbygging hugmyndafræðilegs þrælahalds með ógnvekjandi og almáttugum guðum, valdbeitingu og eignarhaldi og bara þann ramma sem karllæg trúarbrögð hafa sett tilvist konunnar. Fortíðin fylgir okkur og ekki er hægt að líta fram hjá þeirri aldarlöngu hugmyndafræði sem gerir okkur mannfólkið að því sem við erum í dag. Konurnar mínar segja sögu okkar kvenna sem höfum búið við frelsissviptingu, einangrun og atkvæðleysi og afleiðingar þessa á sjálfsvitund, athafnir og líðan. Þessar hugleiðingar eru inntakið í septembersýningunni minni í Artótekinu í Grófinni og verkin eru unnin með akrýl- og olíulitum á síðustu þremur árum.

Í vetur verð ég áfram á svipuðum slóðum, ásamt kennslu á fullorðinsnámskeiðum og fer síðan að huga að sýningarsal undir stærri sýningu. Síðasta ár hefur verið viðburðarríkt, ég hef ferðast töluvert, fór m.a. til Ítalíu í vor og var við opnun samsýningarinnar, Human Rigths? #H2O, sem ég tók þátt í. Ég var líka með í síðustu, Human Rights? #Diversity, en þessar sýningar eru haldnar árlega á vegum The International Association of Art, IAA/AIAP, í samstarfi við Unesco, en þar eru tekin til skoðunnar hin ýmsu mannréttindamál með augum myndlistarmanna víða að úr heiminum. Í sama ferðalagi setti ég upp viku námskeið Skissað við Gardavatn með 11 íslenskum konum sem var mjög skemmtilegt og ég er að hugsa um að gera meira af því að fara með námskeið út fyrir landsteinana. Næsta vor mun ég aftur taka þátt í Human Rigths sýningunni í Rovereto á Ítalíu. Að öðru leyti er allt óráðið hjá mér í framhaldinu.

2. Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Þegar kemur að verkefnavali þá má segja að ég sæki innblásturinn í daglegt og hverstaktlegt líf kvenna. Liti, form og andagift sæki ég hinsvegar til náttúrunnar.

3. Hvaða verkfæri eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?
Pallettuhnífurinn. Hér áður fyrr, í skólanum og um þrjú ár á eftir málaði ég með olíulitum og penslum og fylgdi félagslegu raunsæi. Ég vann mjög nákvæmt, notaði mjóa pensla og stúderaði hin minnstu smáatriði. Þetta vinnuferli var afar hæggengt og ég var mjög lengi að vinna hverja mynd. Það má segja að þó ég hafi lært mikið af þessari nákvæmu skoðun, þá lenti ég eiginlega í öngstræti með þessi vinnubrögð, mér fannst ég skorta yfirsýn og ekki ná kraftinum í málverkinu í þessu hæga ferli. Ég hætti að mála í nokkur ár og þegar ég byrjaði aftur strengdi ég þess heit að nota ekki pensla og í stað olíulitanna byrjaði ég að vinna með akrýlliti. Áhaldið sem ég uppgötvaði þá til að mála með var pallettuhnífurinn en með honum og akrýllitunum náði ég þeim hraða og krafti sem ég vildi ná fram. Enn er pallettuhnífurinn mitt áhald þó að á allra síðustu árum hafi ég aðeins reynt mig aftur við pensilinn við og við.

4. Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Ég er búin að færa aðeins til sólarhringinn eftir að ég byrjaði að kenna á kvöldnámskeiðum og yfirleitt er ég ekki komin á vinnustofuna fyrr en uppúr hádegi. Það verður líka að viðurkennast að ég mæti alls ekki alla daga, ég er ennþá tarnamanneskja, þó ég hafi oft reynt að aga mig að meira normal vinnusiðum en líklega á það ekki eftir að breytast úr þessu. Þegar ég er loksins komin upp á Korpúlfsstaði líður mér mjög vel þar, yfirleitt. Ég kveiki stundum á rás 1 en oftast hlusta ég bara á Leonard Coin, Bessy Smith og Billy Holliday, kannski einhæft en þessi tónlist á heima á vinnustofunni minni. Ég passa mig að koma með nesti eða eiga eitthvað að borða svo ég hafi ekki svengd sem ástæðu til að fara heim. Ég vinn hratt og oft klára ég heilu sýningarnar á skömmum tíma en sumar myndirnar mála ég mörgum sinnum áður en ég er sátt, eða bara alls ekki, en ég er farin að eyða meiri tíma í undirbúning. Ég tek oft ljósmyndir af dagsvinnunni og skoða þegar ég kem heim og prufa breytingar í tölvunni. Í lok vinnudags hreinsa ég stundum alla liti af pallettunni minni á nýjan striga og þá fæðist kannski mynd en reyndar geri ég þetta af því mér finnst hvítur striginn ógnvekjandi þegar ég byrja á nýrri mynd.