Rúna Gísladóttir

Rúna lauk kennaraprófi úr Kennaraskóla Íslands 1962 og kenndi í Reykjavík og á Seltjarnarnesi
í alls rúm þrjátíu ár. Hún nam myndlist á námskeiðum í Noregi og í málaradeild Myndlista- og handíða-
skóla Íslands, útskrift þaðan 1982.
Hún rak myndlistaskólann MYND-MÁL í 30 ár á eigin vegum 1985-2015, kenndi þar fullorðnum
nemendum teiknun og málun og fór í sýningarferðir með nemendum. Kenndi einnig málun við Tómstundaskólann 1985-88.

Rúna hefur ritað blaðagreinar um myndlist og listamenn, sat í sýninganefnd FÍM 1994-97, þar af nefndarformaður í 2 ár.
Einnig hefur hún skrifað allmargar barna- og unglingabækur og þýtt margar bækur. Hún hefur jafnframt frá 1996 unnið að gerð postulínsbrúða, sérhannað fatnað á þær
og haldið nokkrar sýningar á þeim.

Rúna hefur haldið alls 25 einkasýningar, m. a. á Kjarvalsstöðum, í Gerðarsafni, nokkrum
stöðum úti á landi og í Noregi. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, flestum á Íslandi,en einnig á hinum Norðurlöndunum, svo og í París á Cité Internationale des Arts, Króatíu,
Slóveníu og þrisvar í Litháen. Verk eftir hana eru komin til fjölmargra landa.

Rúna hefur hlotið starfslaun listamanna, var valin listamaður ársins á Seltjarnarnesi 2000 og einnig listamaður ársins í Ryvarden Listamiðstöð í Noregi árið 2000. Hún hefur hlotið nokkra ferða-
og starfsstyrki.

Rúna er félagi í SÍM, FÍM og Rithöfundasambandinu. Hún hefur unnið sjálfstætt að myndlist sinni frá 1982 og vinnur jöfnum höndum við málverk á striga, teikningar og collage-myndir. Myndir
hennar eru unnar með olíu eða akrýl og/eða blandaðri tækni. Í verk sín notar Rúna ljóðræn hrif og ívaf óhlutlægra forma í bland við form úr íslensku landslagi.
Flæði lita og jafnvægi í fletinum skiptir hana máli svo og að túlka strauma og krafta frá æðri veröld.