Skip to main content

Hver er listamaðurinn?

Sigurborg Stefánsdóttir heiti ég og hef starfað sem myndlistarkona frá árinu 1987, þegar ég útskrifaðist frá ,,Skolen for Brugskunst“ nú Danmarks Designskole“ í Kaupmannahöfn. Ég vinn jöfnum höndum að frjálsri myndlist og hönnun og hef verið með eigin vinnustofu síðan 2004. Í mörg ár vann ég einnig sem kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar Listaháskóla Íslands.

Ég hef árlega tekið þátt í fjölbreyttum samsýningum víðsvegar um heim og haldið u.þ.b. 14 einkasýningar hér á landi, í Danmörku og á Ítalíu.

Ég er ein af stofnendum bókverkahópsins Arka, en við eigum nú 18 ára samstarf að baki. Við höfum reglulega sýnt bókverk hér heima og erlendis.

Framundan hjá mér er einkasýning í Artótekinu, sem opnar 8. nóvember n.k. Þar mun ég sýna stór verk unnin með blandaðri tækni. En umhverfismál voru mér hugleikin við vinnslu þeirra verka.

Aðra einkasýningu er ég líka að undirbúa, en sú verður í Danmörku í apríl 2017. Þar verð ég með um 40 smærri myndir.

Síðan erum við bókverkahópurinn að skipuleggja stóra sýningu á bókverkum, hér á landi, undir heitinu: Land. En sú sýning verður í samstarfi við nokkra erlenda bókalistamenn. Einnig erum við ARKIR að áforma sýningu í apríl 2018 í Bandaríkjunum.Samhliða undirbúningi á þessum sýningum, er ég að hanna klúta, púða, kort o.fl. fyrir bandarísku vefverslunina VIDA. (http://shopvida.com/collections/voices/sigurborg-stefansdottir)

En í gegnum tíðina hef ég tekið að mér allskyns myndskreytingar og þess konar verkefni fyrir aðra. 

 

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Innblásturinn kemur úr lífinu sjálfu. Allt sem maður sér, heyrir, les og skynjar hefur áhrif á það sem maður gerir.

Mér finnst t.d. mjög gott að fara í sund og hugsa í sturtunni og eins á meðan ég er að synda. Þá kvikna oft ýmsar hugmyndir.

Mér hentar vel frjálst flæði, að leika mér með blýantinn og reyna að tæma hugann. Þá birtist stundum eitthvað sem má nota eða halda áfram með. Mér finnst spennandi að geta verið alveg frjáls í sköpuninni, en líka krefjandi, því allt varðar okkur sem manneskjur.

 

Hvaða verkfæri eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Ætli blýanturinn sé ekki uppáhaldsverkfærið, þó hann komi sjaldnast við sögu í að fullvinna verk, heldur er hann oftast notaður í byrjun, í skissur og minnispunkta. En ég verð líka að nefna litla hnífinn minn (designer scalpel), hann nota ég mjög mikið í bókagerð og klippimyndir. Síðan er það auðvitað tölvan, þegar hún á við, en hennar gæti ég ekki verið án.

 

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Ég mæti á vinnustofuna á morgnana og er þar lungann úr deginum.

Ég er alltaf með einhver verkefni í gangi, nú orðið mest ákvörðuð af sjálfri mér.

Ég fer yfirleitt í sund í hádeginu, annars vinn ég oftast langa daga og nýt þess. En þar sem starfið er líka aðal áhugamál, þá lýkur ekki endilega vinnudegi þegar heim er komið á kvöldin.

www.sigurborgstefans.is