Skip to main content

Hver er listamaðurinn?

Ég heiti Ingimar Ólafsson Waage og er fæddur 1966 í Hafnarfirði. Ég starfa sem listmálari og kennari. Ég sótti menntun mína í Myndlista- og handíðaskólann og eftir það fór ég til Lyon í Frakklandi til frekara náms. Ég hef sinnt myndlistarkennslu í tuttugu ár og heimspekikennslu til viðbótar í nærri tíu ár, en listir og heimspeki eru að mínu viti tvær hliðar á sömu mynt. Kennslan hefur veitt mér innsýn í aðrar hliðar myndlistarinnar en þær sem blasa við listamanninum við trönurnar. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig og undanfarin ár hef ég beint sjónum mínum að siðferðilegu gildi myndlistarkennslu og er um þessar mundir að vinna að doktorsrannsókn á því. Þrátt fyrir að hafa haldið nokkrar sýningar hef ég í raun ekki verið mjög virkur í sýningarhaldi; síðasta einkasýning mín var á vordögum 2011 í Gallerí Fold. Engu að síður stend ég talsvert við trönurnar því þörfin til að tjá mig myndrænt er alltaf til staðar. Á döfinni er mögulegt sýningarsamstarf við sænska listamenn í Uppsala en framvinda þess verkefnis kemur í ljós með haustinu. Einnig er framundan samstarfsverkefni í Skotlandi næsta vetur sem ég tek þátt í ásamt samkennurum mínum við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?

Ég sæki innblásturinn í upplifun mína af náttúrunni, einkum þó birtuna og samspil sólarljóssins við umhverfið. Upplifun af náttúrunni getur verið margs konar, við njótum hennar gjarnan í góðu veðri við góðar aðstæður þegar hún sýnir okkur sínar bestu hliðar. Önnur tegund af upplifun er fengin með því að mæta náttúrunni hvernig sem viðrar, í öllu hennar veldi. Þá arkar maður kannski blautur og hrakinn eftir svörtum sandi í þoku og lætur sig dreyma um heitt vatnið í Strútslaug. Skyndilega styttir upp og þokan leysist upp í slitrur sem læðast með fjallshlíðum, sólargeisli brýst í gegnum sortann og umhverfið ljómar af sterkri og hreinni birtu. Gott ef Mýrdalsjökull glóir ekki handan við Veðurháls. Angan af harðgerðum jarðargróðri stígur upp úr rjúkandi sandinum. Þyngslin hverfa og náttstaður við lækjarsytru er í augsýn. Gufan frá lauginni gefur fyrirheit um notalega kvöldstund.

Hvaða verkfæri eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Olíulitir; spaðar, tuskur og penslar. Sætur ilmurinn af línolíunni kemur í mér gott skap. Ég er líka mjög hrifinn af vatnslitum og þá skiptir miklu máli að vera með sæmilega þykkan franskan Arches pappír, kraftmikla hágæða liti og marðarhárspensil.

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?

Það er enginn dagur dæmigerður hjá mér á vinnustofunni, ég vinn í skorpum og er þá jafnan með fleiri en eina mynd í vinnslu. Þegar ég mála fær innsæið að ráða för, ég geng að trönunum með vissa sýn í huga og tilfinningu í maga sem ég reyni síðan að yfirfæra á strigann eða pappírinn. Þrátt fyrir að ég sé yfirleitt að reyna að fanga lítt skilgreinda minningu af upplifun þá er landslagið gjarnan staðbundið í mínum verkum. Þetta geri ég til að fá nauðsynlega jarðtengingu við reynsluna, finna henni áþreifanlegan stað. Það er viss kúnst að finna jafnvægið milli hins staðbundna í málverkinu og hins óræða en ég álít að gæði málverksins velti á því að þessu jafnvægi sé ekki raskað.

Í grunninn snýst myndlist ekki aðeins um að framleiða áhorfendavænar myndir, hún er miklu fremur tilvistarlegs eðlis. Hún er leið listamannsins til að skilja sjálfan sig og umhverfi sitt: setja tilveruna í samhengi. Mögulega er því samhengi miðlað til áhorfenda sem leggja sína eigin reynslu og tilvistarspurningar í púkkið, þannig stuðlar jafnvægið milli hins óræða og staðbundna að frjórri upplifun áhorfandans.