Skip to main content

Hver er listamaðurinn?
Ég er fædd og uppalin í Fljótshlíðinni og bý þar að hluta til þó ég vinni að mestu leyti að list minni hér á vinnustofunni minni í Reykjavík að Kletthálsi 13.

Hvert sækir þú innblástur í verk þín?
Ég held að það gæti mikilla áhrifa frá umhverfi mínu í Fljótshlíðinni í málverkum mínum. Þar opnast mikill undraheimur daglega í skýjafari bæði til jökla og ekki síður meðfram strandlengjunni sem blasir óralöng við þegar litið er til suðurs. Mikil víðátta og frelsistilfinning. En undanfarin ár hef ég svo til eingöngu fengist við skýjafar og sjólag í málverkum mínum.

Nú er ég að undirbúa einkasýningu í Gerðubergi sem opnar 30.apríl næstkomandi. Ég tel mig vera langt komna með að mála í hana en auðvitað koma upp augnablik sem manni finnst ekki vera komið nóg.

Hvaða verkfæri eða áhald til listsköpunar er í mestu uppáhaldi hjá þér?
Ég mála frekar stórar myndir, það fer einhvernvegin betur að mála stórt þegar maður er með þetta viðfangsefni, himinn og haf.
Ég hef alltaf málað með olíu ekki einu sinni prófað neitt annað því ég mála yfirleitt blautt í blautt og nota spaða og oft hendurnar en sjaldnar pensla

Hvernig myndir þú lýsa dæmigerðum degi hjá þér á vinnustofunni?
Ég vinn flesta daga vikunnar frá mánudegi til föstudags, svolítið misjafnt eftir dögum hvað ég mála lengi en hef það fyrir reglu að mála aldrei á kvöldin og lítið um helgar nema ef ég er í miklu stuði fyrir austan þá mála ég líka þar um helgar en ég er líka með ágætis vinnustofu þar.

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir
www.hrafnhilduringa.com
Sími 821 3993